Mallandsvötn
Veiðivötnin í landi Mallands á Skagaheiði kallast einu nafni Mallandsvötn. Veiðivötnin eru Skjaldbreiðarvatn, Urðartjörn, Heytjörn, Selvatn, Álftavatn og Rangatjarnir.


Skjaldbreiðarvatn
Aðgengi að Skjaldbreiðarvatni er frá Skagavegi, ca. 1,2 km norðan við Mallandsbæinn. Keyrt er út af Skagavegi til vinstri, inn á afgirt tún og svo meðfram hömrum. Ganga þarf um 400 metra yfir hæð eina og þá blasir Skjalbreiðarvatnið við í skjóli kletta norðan og austan við vatnið. Stekkjarlækur rennur í Skjaldbreiðarvatn að suðvestanverðu. Úr Skjaldbreiðarvatni rennur Skjaldbreiðarlækur, en landamerki Mallands og Neðra-Nes eru ca. 250 metrum frá útfallinu.
Urðartjörn og Heytjörn
Frá Skagavegi er ca. 2 km vegslóði að Urðartjörn. Á milli Urðartjarnar og Heytjarnar rennur lækurinn Utangægir. Heytjarnarlækur rennur í Heytjörn. Úr Urðartjörn rennur Urðarlækur ca. 500 metra í átt að Skjaldbreiðarvatni, áður en hann hverfur ofan í urðina og rennur svo neðanjarðar á ca. 400 metra kafla, niður fyrir Urðarbrúnir. Þetta svæði heitir Urðarfossar og má heyra fossanið neðanjarðar á þessu svæði. Mikið er um gjótur á þessu svæði og segja sögur, að hægt hafi verið að veiða silung í sumum gjótunum. Stekkjarlækur kemur svo undan urðinni niður á sléttunni við Skjaldbreiðarvatn og rennur hann ca. 400 metra að Skjaldbreiðarvatni.


Selvatn
Tæplega 3 km akstur er frá Urðartjörn lengra inn heiðina, en þar eru Selvatn, Álftavatn og Rangatjarnir. Vegslóðinn að Selvatni er ágætur, en slóðarnir að Álftavatni og Rangatjörnum eru síðri en óbreyttir jeppar fara þessa leið með lagni. Úr Selvatni rennur Blöndulækur niður að Álftavatni og sameinast Skammá, sem rennur úr Álftavatni.
Álftavatn
Ca. 250 metrum áður en komið er að Selvatni, er vegslóði til hægri að Álftavatni. Rekaviðadrumbar eru við vegslóðan þar sem slóðin að Álftavatni er. Ath. að vegslóðinn beygir svo til vinstri eftir 100 metra og þar yfir urðarhæð og svo meðfram henni hægra megin við hæðina. Slóðinn verður svo greinilegri þegar komið er niður hæðina. Úr Álftavatni rennur Skammá og sameinast Blöndulæk 200 metrum neðar, eftir það heitir áin Engjaá. Rétt áður en komið er að Álftavatni er vað yfir Engjaá sem þarf að fara gætilega yfir.


Rangatjarnir
Frá Selvatni er ekið að Rangatjörnum. Farið gætilega yfir brúnna yfir Blöndulæk, sem rennur úr Selvatni. Vegslóðinn er grýttur og seinfarinn. Þegar komið er út fyrir Seltjörn (sem er fisklaus), er ekið til vinstri meðfram Seltjörn og niður að Syðri-Rangatjörnum. Úr Syðri-Rangatjörn rennur Kýrlækur niður í Álftavatn. Vegslóðinn að Ytri-Rangatjörnum er ófær við Kýrlæk.